Byssumenn, sem sögðust vera talíbanar, réðust á brúðkaupsgesti í austurhluta Afganistan til að stöðva tónlist. Tveir eru látnir og tíu eru særðir eftir árásina, að því er segir í frétt á vef BBC.
Talsmaður á vegum talíbana sagði að tveir af byssumönnunum þremur hefðu verið handteknir en tók fyrir að þeir hefðu framið verknaðinn fyrir hönd talíbana.
Vitni sagði fréttastofu BBC að um sameiginlega hjónavígslu fjögurra para hefði verið um að ræða í Nagnarhar-héraði í Afganistan á föstudag. Leyfi til að spila tónlist í brúðkaupinu hafði verið aflað frá yfirvöldum talíbana á svæðinu.
Síðar um kvöldið brutust byssumennirnir inn í veisluna og reyndu að eyðileggja hátalara. Þegar gestirnir mótmæltu hófu þeir skothríð.
Talsmaður talíbana, Zabihullah Mujahid, sagði málið vera til rannsóknar.
Tónlist var bönnuð í valdatíð talíbana í Afganistan á árunum 1996 – 2001 en slík fyrirmæli hafa ekki komið frá núverandi yfirvöldum.
Síðan talíbanar komust aftur til valda hafa þeir verið sakaðir um að hafa myrt þjóðlagasöngvara og að hafa brotið í sundur hljóðfæri. Margir söngvarar og tónlistarmenn hafa þegar flúið Afganistan.