Greindist neikvæður eftir Covid-smit talsmanns

Joe Biden á G20-ráðstefnunni í Róm.
Joe Biden á G20-ráðstefnunni í Róm. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti greindist neikvæður í skimun vegna kórónuveirunnar eftir að helsti talsmaður hans greindist jákvæður.

Hvíta húsið greindi frá því að forsetinn hafi farið í PCR-próf í gær.

Blaðafulltrúinn Karine Jean-Pierre sagði að Biden hafi ekki farið í skimun í ljósi jákvæðrar niðurstöðu talsmannsins Jen Psaki, heldur hafi hann þegar þurft að fara vegna farar sinnar til Bretlands.

Jen Psaki.
Jen Psaki. AFP

Psaki, sem er oft í samskiptum við Biden í Hvíta húsinu, hætti við að fara á ráðstefnu G20-ríkjanna í Róm og loftslagsráðstefnuna í Glasgow eftir að fjölskyldumeðlimir greindust með kórónuveiruna.

Eftir að hafa greinst neikvæð alla síðustu viku fékk hún loks jákvætt svar í gær. 

Eftir greininguna sagðist Psaki ekki hafa verið í „mikilli nálægð“ við Biden og annað háttsett fólk í Hvíta húsinu eftir að fjölskylda hennar greindist með veiruna.

Biden, sem er 78 ára, er fullbólusettur og hefur jafnframt fengið örvunarskammt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert