Það virðist hafa farið vel á með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, við setningu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, í Glasgow í Skotlandi í dag.
Á myndum sem ljósmyndarar AFP tóku af kollegunum tveimur heilsuðust þau ýmist með olnbogahandabandi, eins og vel hefur þekkst í heimsfaraldrinum, eða, að því er virðist, að austurlenskum sið.
Katrín flytur á morgun erindi á leiðtogaráðstefnu Loftslagssamningsins og hægt verður að fylgjast með í beinu streymi, eins og segir í tilkynningu þar um á vef Stjórnarráðsins.
Auk forsætisráðherra sækir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- og nýsköpunarráðherra, ráðstefnuna síðar í vikunni og tekur þátt í hliðarviðburðum tengdum orkumálum.
Þá verður Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, viðstaddur seinni viku ráðstefnunnar. Hann mun taka þátt í hliðarviðburðum og tvíhliða fundum, m.a. um vernd og endurheimt votlendis, um súrnun sjávar og um alþjóðlegan samning sem unnið er að um loftslagsmál, viðskipti og sjálfbærni.