Reyna að bjarga fólki úr rústum í Lagos

Björgunaraðgerðir standa nú yfir eftir að háhýsi hrundi í Ikoyi-hverfinu …
Björgunaraðgerðir standa nú yfir eftir að háhýsi hrundi í Ikoyi-hverfinu í Lagos. AFP

Fjölmenni varð undir háhýsi sem hrundi í Ikoyi-hverfinu í Lagos, höfuðborg Nígeríu í dag. Ekki hefur tekist að staðfesta fjölda þeirra sem urðu undir í slysinu en björgunaraðilar og heimamenn keppast nú við það að grafa fólk upp úr rústunum, að sögn fréttaritara AFP sem er á vettvangi.

„Fólkið sem var þarna inni á fjölskyldur“

„Viðgerðir stóðu yfir á tuttugu og eins hæða byggingunni þegar hún hrundi. Það er fjöldi verkamanna fastir í rústunum og við erum að reyna bjarga þeim,“ segir Femi Oke-Osanyintolu, embættismaður í neyðarstjórn Lagos.

„Tölur yfir fjölda látinna liggja ekki fyrir. Björgunaraðgerðir á svæðinu standa enn yfir,“ bætir hann við.

Verkamenn á vettvangi segja fjölda samstarfsmanna sinna geta hafa verið inni í byggingunni þegar hún hrundi.

„Þetta er svo sorglegt því fólkið sem var þarna inni á fjölskyldur,“ segir Latif Shittu.

Ikoyi er eitt af efnameiri íbúða- og viðskiptahverfum Lagos, sem er ein helsta verslunarborg Nígeru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert