Segir forsætisráðherrann hafa logið

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir að Scott Morrisson, forsætisráðherra Ástralíu, hafi logið að sér um 37 milljarða dollara (4.795 milljarða króna) samning er sneri að gerð kafbáta.

Saga málsins er sú að Ástralar höfðu gert samkomulag við Frakka um kafbátakaup, sem síðan varð ekkert af vegna þess að Ástralar gengu til bandalags við Breta og Bandaríkjamenn um viðveru herafla á Kyrrahafssvæðinu.

Málið vakti gríðarlega reiði í Frakklandi og var utanríkisráðherra Frakka,  Jean-Yves Le Dri­an, ansi gífuryrtur í garð Ástrala. Sagði hann meðal annars að Ástralar hefðu „stungið Frakka í bakið“.

Biden viðurkenndi „klunnaskap“

Macron og Morrison hittust á fundi G20-ríkjanna í Róm, í fyrsta sinn síðan ósættið kom upp í september.

Morrison þvertekur fyrir að hann hafi verið óheiðarlegur í garð Frakka, að því er segir í frétt BBC um málið.

Eftir fundinn var Macron spurður að því hvort hann héldi að Morrison hafi logið að honum um kafbátakaupin og svaraði Macron um hæl: „Ég held ekki, ég veit.“

Macron og Joe Biden Bandaríkjaforseti hittust við sama tilefni nú um helgina og á hálfkindarlegum fundi viðurkenndi sá síðarnefndi að Bandaríkin hefðu gerst sek um „klunnaskap“ þegar þau gengu í bandalag með Ástralíu og Bretlandi.

Macron sagði þá að best væri að „líta til framtíðar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert