Fjöldi þjóðarleiðtoga hefur heitið því að undirrita samning sem lofar því að skógareyðing heyri sögunni til árið 2030. Gagnrýnendur segja vera of langt í það og vilja sjá fljótar gripið inn í svo hægt sé að bjarga „lungum jarðar“.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og fundarstjóri COP 26-ráðstefnunnar, segir samninginn um skógareyðingu grundvallaratriði í markmiði ráðstefnunnar sem er að takmarka hlýnun jarðar við eina og hálfa gráðu.
„Skógar styðja samfélög, lífsafkomu og fæðuframboð auk þess að þeir fanga koltvísýringinn sem við dælum út í andrúmsloftið. Þeir eru grundvöllur þess að við komumst lífs af,“ sagði Johnson í Glasgow í dag.
Samningnum fylgir 20 milljarða dala (2,6 billjóna króna) bakland úr opinberum og einkasjóðum en yfir 100 ríki standa að baki honum. Í þeim ríkjum er yfir 85% af skóglendi jarðarinnar. Meðal aðildarríkja eru Rússar og Brasilíumenn sem hafa sætt mikilli gagnrýni fyrir stórtæka skógareyðingu.
Í samningum er því lofað að stöðva skógareyðingu fyrir árið 2030 og bæta við skógrækt á sama tíma. Auk þess er stefnt að því að tryggja réttindi og lífsviðurværi innfæddra í skógum og viðurkenna þá sem „verndara skóga.“
Johnson heldur því fram að þetta sé áður óséð framfaraskref en á lofstlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 2014 var keimlík viljayfirlýsing undirrituð þar sem því var heitið að helminga eyðslu skóganna fyrir árið 2020 og stöðva hana algjörlega fyrir árið 2030.
Þrátt fyrir ofangreinda yfirlýsingu eru tré ennþá felld í massavís í dag og sér í lagi í Amazon-frumskóginum í Suður-Ameríku. Helmingur þess skóglendis sem var á jörðu hefur þegar verið hoggið niður af mönnum. Það er sérlega skaðlegt loftslaginu þegar sama svæði er nýtt í landbúnað sem losar koltvísýring í stað þess að binda hann eins og losa súrefni eins og tré.