Hæstiréttur Íraks hefur dæmt mann til hengingar fyrir morðið á tveimur blaðamönnum sem fjölluðu um mótmæli gegn stjórnvöldum í borginni Basra í suðurhluta landsins í fyrra.
Ahmad Abdessamad, 37 ára fréttamaður hjá sjónvarpsstöðinni Al-Dilja, og myndatökumaður hans, Safaa Ghali, 26 ára, voru að keyra í heimaborg sinni Basra í janúar í fyrra þegar annar bíll ók upp að þeim og byssumenn hófu skothríð.
Maðurinn sem var dæmdur, með upphafsstafina H.K., játaði á sig glæpinn.
Ekki er vitað hvaða samtökum hann tilheyrir en í dómnum kemur fram að hann hafi ætlað að „draga úr öryggi og ógna fólki vegna hryðjuverka“.
Barham Saleh, forseti Íraks, þarf að undirrita skjal sem heimilar henginguna. Hinn seki hefur 30 daga til að áfrýja málinu.