Í gær minntust Norðmenn þess að þrjú ár voru liðin síðan undarlegasta og voveiflegasta sakamál Noregs hin síðari ár kom upp, algjörlega sporlaust hvarf Anne-Elisabeth Hagen, eiginkonu auðmannsins og verkfræðingsins Tom Hagen, af heimili sínu í Lørenskog, rétt utan við Ósló, mál sem, þrátt fyrir líklega umfangsmestu lögreglurannsókn Noregs síðan David Toska og félagar rændu NOKAS-bankann í Stavanger vorið 2004, er enn óupplýst og virðast öll sund lokuð eftir að saksóknari las lögreglu pistilinn og bannaði henni frekari sókn að eiginmanninum sem sat á tímabili í gæsluvarðhaldi og er enn formlega grunaður um að hafa komið konu sinni fyrir kattarnef.
„Ég vil eiginlega ekki ræða þetta mál, en mér finnst mikilvægt að við höldum áfram og finnum út hvað gerðist [...] Ég vil vita hver urðu örlög hennar,“ segir hinn landsþekkti fyrrverandi skautahlaupari Johann Olav Koss sem hlaut þrenn gullverðlaun á Vetrarólympíuleikunum í Lillehammer árið 1994 og setti þar jafnframt þrjú heimsmet, með nafn verkfræðifyrirtækis Hagen á brjósti sér sem styrktaraðila.
Gegnum styrktarsamninginn við T. Hagen AS varð Koss góðvinur fjölskyldunnar og greinir norska ríkisútvarpinu NRK frá vináttu sinni við eiginkonuna sem hvarf. „Tom og „Lisbeth“ studdu mig til að verða besti skautahlaupari heims og á því hef ég byggt líf mitt,“ segir Koss sem nú er á sextugsaldri og löngu búinn að leggja skautana á hilluna frægu.
Sextán ára gamall leitaði Koss til verkfræðingsins sem samþykkti að styrkja hann um 40.000 norskar krónur, upphæð sem á gengi dagsins í dag er um 600.000 íslenskar krónur og var stórfé um miðjan níunda áratuginn. „Þannig hófst okkar vinátta. Tom varð mér ákaflega mikilvægur í íþróttinni, án þess að margir viti af því þar sem hann vildi enga athygli. Hann var fyrsti styrktaraðilinn minn og hann styrkti mig þar til ég hætti árið 1994,“ segir skautahlauparinn sem svo sannarlega hætti á toppnum með þrjú gull um hálsinn í Lillehammer.
Hann kveður þau hjónin hafa verið ákaflega umhyggjusöm í garð fjölskyldu sinnar og lítið hirt um veraldlegt prjál og stöðutákn, eiginkonan hafi búið yfir ríkulegri kímnigáfu, gleði og hlýju. Í fáum orðum sagt hafi það verið einstaklega gefandi að umgangast hana.
Undir þetta tekur Berit Lind, besta vinkona Anne-Elisabeth, og segir hana hafa verið heiðarlega og gegnheila manneskju. „Ekkert slúður eða baktal nokkurn tímann,“ segir Lind sem síðast ræddi við vinkonu sína tveimur dögum fyrir hvarf hennar haustið 2018. Báðar voru þær hundaeigendur og nutu þess, að sögn Lind, að fara í langa göngutúra með dýrin um fagra náttúruna í Lørenskog, þar á meðal umhverfis Langvannet.
Þau Koss eru á einu máli um mikilvægi þess að hið sanna í málinu komi fram einn daginn. „Það er mikilvægt fyrir okkur sem höfum umgengist þau öll þessi ár, við söknum „Lisbeth“ öll og viljum komast að því hvað gerðist,“ segir skautahlauparinn fyrrverandi að lokum.