Bezos heitir 250 milljörðum á COP26

Jeff Bezos.
Jeff Bezos. AFP

Bandaríski auðkýfingurinn Jeff Bezos, stofnandi Amazon, segir að sjóður í hans nafni, Bezos Earth Fund, muni setja tvo milljarða dala í að færa landslag aftur í sitt upprunalega horf og breyta matvælakerfum. Upphæðin samsvarar um 250 milljörðum kr. 

Bezos greindi frá þessu á loftslagsráðstefnunni COP26 sem fer nú fram í Glasgow í Skotlandi. Hann kveðst hafa áttað sig á því hve náttúran er viðkvæm er hann ferðaðist nýverið út í geim. 

„Það var sagt við mig að þegar ég sæi jörðina frá geimnum þá myndi sjónarhorn mitt á jörðina breytast, en ég var ekki undir það búinn hversu satt þetta yrði í raun og veru,“ sagði Bezos.

Auðkýfingar á borð við Bezos hafa verið gagnrýndir fyrir að eyða fjármunum í geimskot í staðinn fyrir að einblína á að leysa þau vandamál sem mannskynið stendur frammi fyrir á jörðu niðri. 

Þá hafa starfsmenn Amazon einnig gagnrýnt fyrirtækið fyrir að standa sig illa í umhverfismálum. 

Bezos sagði jafnframt að það standi til að sjóðurinn muni alls verja um 10 milljörðum dala í baráttunni gegn loftslagsvánni, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert