Hætta eyðingu skóga og minnka losun metangass

Þjóðarleiðtogar samþykktu í dag á loftslagsráðstefnunni COP26 í Glasgow að hætta eyðingu skóga og að minnka losun metangass fyrir árið 2030.

„Eitt það mikilvægasta sem við getum gert á tímabilinu til ársins 2030, til að halda 1,5 gráðum innan seilingar, er að draga úr metanlosun okkar eins fljótt og auðið er,“ sagði Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og vísaði til aðalmarkmiðsins í Parísarsamkomulaginu 2015.

Hann kallaði loforðið, sem hingað til hefur verið undirritað af næstum 100 þjóðum, „aðgerð sem breytir leiknum“, sem nái yfir lönd sem bera ábyrgð á um helmingi alheimsútblásturs metans.

Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði að metanskerðingin myndi tafarlaust hægja á loftslagsbreytingum.

„Við getum ekki beðið til ársins 2050. Við verðum að draga hratt úr losun og metan er ein af þeim lofttegundum sem við getum dregið hraðast úr,“ sagði hún.

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sagði við blaðamenn í dag að hann væri hóflega bjartsýnn á þær framfarir sem hafa náðst hingað til. Hann varaði þó við því að enn væri langt í land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert