Næstum 30 þúsund íbúar á Madagaskar standa nú frammi fyrir hungursneyð sem rekja má til afleiðinga loftslagsbreytinga en þurrkatíð gengur nú yfir og hefur ástandið ekki verið eins slæmt í fjóra áratugi.
Þetta kom fram á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í dag.
Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna segir hungursneyðina herja á rúmlega 27 þúsund íbúa eyjunnar og að til viðbótar séu 1,3 milljón manna í matarneyð.
Arduino Mangoni hjá matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, sagði að vænta megi þess á næstu mánuðum og árum að hungursneyð vegna loftslagsbreytinga muni færast í aukana. „Við erum að sjá merki um þetta alls staðar,“ sagði Mangoni þegar hann ávarpaði COP26 ráðstefnuna í dag.
Nú þegar eru um 500 þúsund barna á eyjunni í lífshættu vegna vannæringar en búast má við að næsta uppskerutímabil á eyjunni hefjist ekki í mars eða apríl á næsta ári, ef hún hefst þá. Segir Mangoni brýna þörf á að auka aðstoð strax og telur matvælastofnunin nauðsynlegt að veita um 69 milljónir Bandaríkjadala í aðstoð fyrir næsta sex mánaða tímabil. Nemur það um 9 milljörðum íslenskra króna.
Þá sagði Mangoni að heilbrigðisstarfsfólk ítrekað heyra sögur frá mæðrum sem höfðu misst börnin sín en að erfitt væri að halda utan um tölfræðina þar sem að skráning á dauðsföllum ungra barna er ábótavön.