Ráðherra í hjólastól komst ekki inn á ráðstefnuna

Elharrar og Johnson heilsuðust með covid kveðju þegar þau hittust …
Elharrar og Johnson heilsuðust með covid kveðju þegar þau hittust í dag. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur beðið Karine Elharrar, orkumálaráðherra Ísraels, afsökunar því að hjólastólaaðgengi hafi verið ábótavant á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26) sem fer nú fram í Glasgow. BBC greinir frá.

Elharrar, sem glímir við vöðvarýrnunarsjúkdóm og notast við hjólastól, beið fyrir utan einn inngang á ráðstefnusvæðinu í tvo klukkutíma í gær áður en hún snéri aftur á hótelið sitt, án þess að komast á ráðstefnuna. Johnson bað hana afsökunar á þessum misskilningi þegar þau hittust á fundi í dag ásamt forsætisráðherra Ísraels, Naftali Bennett.

Bennett þakkaði kollega sínum fyrir skjót og góð viðbrögð við þessu óheppilega atviki og sagði hægt að draga af því lærdóm. Það væri mikilvægt að gera alltaf ráð fyrir aðgengi fyrir alla. Johnson samsinnti því.

Skellti skuldinni á sendinefndina

Áður hafði George Eustice, umhverfisráðherra Bretlands, einnig beðist afsökunar, en á sama tíma skellt skuldunni á ísraelsku sendinefndina. „Í svona aðstæðum væri eðlilegt að Ísraelar hefðu gert grein fyrir sérþörfum þessa ráðherra. Það fór augljóslega eitthvað úrskeiðis varðandi upplýsingagjöf og því var ekki búið að gera ráðstafanir við þennan tiltekna inngang sem hún ætlaði að nýta,“ sagði hann og hefur fengið töluverða gagnrýni fyrir. Hann benti á flestir inngangar á ráðstefnuna væru með hjólastólaaðgengi.

Talsmaður ísraelska sendiráðsins í London sagði hins vegar að sendinefnin hefði verið í sambandi við ráðstefnuhaldara síðustu vikur þar sem gerð hefði verið grein fyrir kröfum ráðherrans.

Elharrar sagði í samtali við BBC að hún hefði komist á ráðstefnuna án nokkurra vandkvæða í dag og upplifunin hefði verið allt önnur. Atvikið á mánudag væri þó góð áminning um að gera yrði betur á næstu ráðstefnu. Hún sagði ekki nóg að tala um aðgengismál og réttindi fólks með fötlun, heldur þyrfti gefa gaum að öllum smáatriðum í daglegu lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert