Boðar til blaðamannafundar vegna SMS-samskipta

Mette Frederikssen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederikssen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur boðað fjölmiðla á blaðamannafund klukkan sjö í kvöld að íslenskum tíma. Í dag er eitt ár síðan ríkisstjórn Danmerkur tók þá ákvörðun að drepa alla minka landsins vegna Covid-19 stökkbreytinga. 

Ákvörðunin sætti harðri gagnrýni, enda var engin lagastoð fyrir ákvörðuninni, en í nóvember á síðasta ári sagði landbúnaðaráðherra Danmerkur af sér vegna þess.

Komið aftur í umræðu vegna rannsóknarnefndar

Málið er aftur komið í umræðuna vegna SMS-samskipta milli Mette og hátt settra embættismanna innan flokks hennar.

Það eru gögn sem rannsóknarnefnd um minkamálið þrábiður nú forsætisráðherrann um en bæði hún og þeir sem hún átti í samskiptum við um málið segja síma þeirra eyða öllum SMS-um og gögnum tengdum þeim sjálfvirkt. 

Vegna þessa er fjölda spurninga um málið enn ósvarað að sögn DR, þar á meðal hvers vegna forsætisráðherrann og hennar fólk eyði öllum sínum skilaboðum, hver hafi ráðlagt henni í minkamálinu og hvers vegna hún hafi verið svo lengi að svara rannsóknarnefndinni.

Þá vekur þetta einnig upp spurningar hvort SMS-samskiptin séu geymd samkvæmt þar að lútandi reglum og hvort hægt sé að endurheimta þau með einhverjum hætti.

Gert er ráð fyrir því að Mette svari þessum spurningum á fundi kvöldsins. Dagskrá forsætisráðherrans er þétt þar sem þing Norðurlandaráðs fer fram í Kaupmannahöfn um þessar mundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert