Hæstiréttur Bandaríkjanna hlýddi í dag á mál er varðar annan viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar um réttinn til þess að bera skotvopn, í fyrsta sinn síðan 2008. Málið varðar löggjöf í New York-ríki sem skyldar menn sem ætla að ganga með skotvopn utan heimilis til þess að geta sýnt fram á nauðsyn þess.
Málið á rætur sínar að rekja til tveggja manna sem var neitað um leyfi til þess að bera skammbyssur á almannafæri til sjálfsvarnar. Telja þeir það vera brot á öðrum viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna sem kveður á um rétt manna til þess að eiga og bera vopn.
Rétturinn hefur verið ragur við það að fjalla um mál er varða þann viðauka eftir dóm frá 2008 þar sem niðurstaðan var sú að ákvæðið tryggði rétt fólks til þess að eiga byssur en setti ríkjum það í sjálfsvald hvernig reglum um byssuburð utan heimils væri háttað. Dómurinn í hinu nýja máli kynni því að rýmka rétt fólks í öllum ríkjum til þess að bera byssur utan heimilisins verulega.
Dómararnir sem nú sitja í Hæstarétti eru nokkuð íhaldssamari og hrifnari af víðtækara eignarhaldi á byssum og minna regluverki í kringum þær. Donald Trump skipaði þrjá dómara í sinni valdatíð svo hlutfall íhaldssamari dómara er komið upp í 6 á móti 3 frjálslyndum.
Eftirlifandi fórnarlamb skotárásar lýsti yfir áhyggjum af málinu fyrir utan dómshúsið í dag þar sem nokkrir mótmælendur söfnuðust saman: „Við erum einfaldlega að óska eftir öryggi. Við erum að biðja um að fá að lifa“.
Dómararnir fá tíma til þess að ráða ráðum sínum en þurfa að skila dómi fyrir júnímánuð á næsta ári.