Brýnt að verja hinn „djúpa frið“

Jens Stoltenberg fagnaði því að geta loks rætt varnar- og …
Jens Stoltenberg fagnaði því að geta loks rætt varnar- og öryggismál á vettvangi ráðsins. Ljósmynd/Norðurlandaráð

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði að það væri brýnt verkefni að varðveita hinn „djúpa frið“ sem ríkt hefði í Evrópu, og að slíkt myndi aðeins nást með áframhaldandi og öflugu samstarfi milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Stoltenberg var sérstakur gestur á þingi Norðurlandaráðs í gær og ávarpaði þingið. Sagði hann það vera mikinn heiður fyrir sig, því hann hefði áður sótt þingið sem þingmaður, utanríkisráðherra og forsætisráðherra Noregs, og að hann væri sérstaklega glaður að geta rætt varnar- og öryggismál á þingi, þar sem slík mál hefðu aldrei verið rædd, en væru nú aðalmálið.

„Norðurlandaráð er mikilvægt, því það byggir upp samstarf, traust og vináttu. Á því höfum við þörf, ekki síst á tímum þar sem aukins samstarfs er þörf á milli landa,“ sagði Stoltenberg og bætti við að ekki væri sjálfgefið að lifa á friðartímum.

Stoltenberg vísaði sérstaklega til Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins, sem hefðu náð að tryggja stöðugleika og traust í Evrópu á þann veg að öll norrænu löndin nytu góðs af, óháð því hvort þau væru aðilar.

Stoltenberg vitnaði í Jonas Gahr Støre, sem var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Stoltenbergs, sem hefði talað um hinn „djúpa frið“, það er friður sem væri svo mikill að við gætum varla séð fyrir okkur lengur að stríðsátök brytust út. „Það er gott, en líka svolítið hættulegt, því þá gleymum við þeim hörmungum sem fylgja stríði,“ sagði Stoltenberg meðal annars.

Stoltenberg fór í máli sínu yfir þær fjölmörgu áskoranir sem vestræn lýðræðisríki stæðu frammi fyrir. Stoltenberg nefndi þar sérstaklega ágengni Rússlands og Kína, auk þess sem hann nefndi netárásir, blandaðar árásir og útbreiðslu kjarnorkuvopna sem dæmi um öryggisógnir.

„Allar þessar áskoranir sem við stöndum andspænis eru ólíkar, en það er eitt sameiginlegt með þeim. Ef Norður-Ameríka og Evrópa standa saman þá getum við ráðið við þessar áskoranir, en ef við hættum samstarfinu tekst okkur það ekki.“ Sagði Stoltenberg nú vera sögulegt tækifæri til að auka samstarfið við bæði Bandaríkin, sem og Evrópusambandið. Stoltenberg galt hins vegar varhug við hugmyndum um sérstakan Evrópuher, þar sem brýnna væri að Evrópuríkin myndu auka fjárfestingu sína til varnarmála, en ekki að búa til nýtt skipulag sem myndi þá keppa við bandalagið um liðsafla og um leið veikja varnargetu þess.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 4. nóvember. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert