Minnst 36 létust þegar háhýsi hrundi í Ikoyi-hverfinu í Lagos, höfuðborg Nígeríu á mánudaginn síðastliðinn, að því er björgunaraðilar á svæðinu greina frá.
Orsök atviksins er óþekkt en hrun bygginga er algeng í þessu fjölmennasta landi Afríku, þar sem milljónir manna búa í niðurníddum húsum og byggingastöðlum er oft ekki fylgt.
Viðgerðir stóðu yfir á tuttugu og eins hæða háu hýsinu þegar það hrundi seinnipart síðastliðins mánudags og varð fjöldi verkamanna undir í slysinu.
„Sem stendur er fjöldi látinna 36, þar af 33 karlmenn og þrjár konur. Níu manns lifðu slysið af,“ segir Femi Oke-Osanyintolu, embættismaður í neyðarstjórn Lagos, í samtali við fréttastofu AFP.
Fjölskyldur og vinir fólks sem fast er í rústunum hafa beðið dögum saman fyrir utan vettvanginn á meðan björgunaraðgerðir standa yfir, í von um að ástvinir þeirra finnist í rústunum.
Björgunaraðilar sögðu 22 lík hafa fundist í rústunum á miðvikudag. Fleiri lík fundust svo síðar sama dag.
Ibrahim Farinloye, hjá öryggis- og almannavarnadeild Nígeríu staðefsti fjöldann í dag.
Hann segir að björgunaraðgerðum verði ekki hætt fyrr en öllum hefur náð upp úr rústunum, hvort sem þeir eru lífs eða liðnir og bætir því við að stórar vinnuvélar hafi verið teknar í gagnið við björgunaraðgerðirnar á þriðjudaginn sl.
Tvær smærri byggingar hrundu til viðbótar í Lagos á þriðjudaginn síðastliðinn eftir miklar rigningar en enginn lést í þeim slysum, að sögn Farinloye.
Lélegum vinnubrögðum, ódýrum efnum og skorti á opinberu eftirliti er oft kennt um þegar byggingar hrynja á þennan hátt.
Babajide Sanwo-Olu, ríkisstjóri Lagos, sagði á miðvikudaginn að atvikið væri „hræðilegt þjóðarslys“ og að „mistök hafi verið gerð“.
Þá sagðist hann vera að setja á laggirnar óháða nefnd sem kanna á orsakir slyssins svo hægt sé að koma í veg fyrir að svipuð atvik eigi sér stað aftur.