Uppreisnarliðar nálgast höfuðborg Eþíópíu

Hermaður úr uppreisnarher TPLF.
Hermaður úr uppreisnarher TPLF. AFP

Stjórnvöld í Eþíópíu lýstu í dag yfir neyðarástandi í landinu en uppreisnarhermenn færast nær höfuðborginni. Ástandið í landinu er nú þegar slæmt en hundruð þúsunda heimamanna búa við hungur vegna ástandsins og vara stjórnvöld við því að sú tala muni einungis hækka.

Í dag er rétt ár liðið síðan forsætisráðherra Eþíópíu, Abiy Ahmed, sendi herlið í nyrsta hérað landsins, Tigray. Uppreisnarliðar í héraðinu eru nú einungis nokkur hundruð kílómetra frá höfuðborginni Addis Ababa.

Uppreisnarsamtökin frá Tigray, TPLF (Tigray People's Liberation Front) hafa staðið í átökum við stjórn Abiy í um ár. Áður en Abiy tók við voru TPLF leiðandi í stjórnmálum á landsvísu í Eþíópíu.

Nyrstu héröð Eþíópíu sjást hér á kortinu.
Nyrstu héröð Eþíópíu sjást hér á kortinu. Kort

Snarpur sigur ekki raunin

Forsætisráðherra landsins lofaði snörpum sigri stjórnarhersins í upphafi átakanna en um mitt sumar höfðu uppreisnarmenn náð stjórn yfir Tigray-héraði á ný og hófu að færa út kvíarnar í nágrannahéröðin Afar og Amhara.

TPLF tilkynntu svo seint í gær að þeir höfðu náð stjórn á bænum Kemissie í Amhara-héraðinu. Bærinn er þá einungis 325 kílómetra frá höfuðborginni.

Vont ástand verður verra

AFP hefur eftir embættismanni úr mannúðaraðstoð Bandaríkjanna að ástandið í Eþíópíu komi bara til með að versna á komandi misserum ef fram fer sem horfir.

„Við getum bara gert ráð fyrir því að sókn uppreisnarliða á höfuðborgina mun bara skila sér í auknum fólksflótta, aukinni þörf á neyðaraðstoð og aukinni þjáningu Eþíópíubúa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert