Tveir fangar á dauðadeild í Japan hafa kært það að fangar séu einungis látnir vita af tímasetningu aftöku nokkrum klukkustundum áður en hún er fyrirhuguð.
Fangar sem hljóta dauðarefsinguna í Japan eru hengdir en um 100 manns bíða nú aftöku á dauðadeildum í Japan. Dauðarefsingunni er almennt framfylgt nokkru eftir að dómur er kveðinn upp.
Lögmaður fanganna sem hafa kært það að föngum á dauðadeild sé veittur svo stuttur fyrirvari segir að um sé að ræða „virkilega ómannúðlega“ framkomu, að því er japanskir fjölmiðlar greina frá.
Réttindasamtök fanga hafa lengi gagnrýnt þessa meðferð og segja hana hafa neikvæð áhrif á geðheilsu fanga.
„Fangar á dauðadeild vakna á hverjum degi og óttast að sá dagur verði þeirra síðasti,“ sagði lögmaður fanganna, Yutaka Ueda. Hann telur að framkvæmdin sé ólögleg og kallar eftir því að henni verði breytt.
Fangarnir krefjast þess sömuleiðis að fá 22 milljónir japanskra jena, eða það sem nemur um 2,5 milljónum íslenskra króna, vegna óþægindanna sem það hefur valdið þeim að bíða í óvissu eftir aftöku.