Garrí Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák, hefur greinilega ekki látið það á sig fá þegar hann tapaði einvíginu við Djúpbláa, ofurtölvu IBM, á tíunda áratugnum því hann er sannfærður um að helsta ógnin þessa dagana sé maðurinn, ekki gervigreind.
Kasparov er heillaður af tækni og vísindum og á netráðstefnunni, sem haldin var í Lissabon í Portúgal í vikunni, ræddi hann við AFP um vaxandi umfang gervigreindar í samfélaginu þegar hann hafði lokið sér af við að tefla fjöltefli við tíu manns. Þarf vart að taka fram að hann hafði betur í öllum skákunum á 45 mínútum.
„Við lifum í heimi þar sem vélar leika stærra og stærra hlutverk,“ sagði Kasparov. „Þetta er að gerast hvort sem fólki líkar betur eða verr. Það eru einfaldlega engar vísbendingar um að okkur stafi ógn af vélum. Hin raunverulega hætta stafar ekki af manndrápsþjörkum heldur fólki - vegna þess að fólk er enn með einokun á illsku.“
Kasparov, sem hefur gagnrýnt stjórnvöld í Kreml harðlega, segir mesta ógnin sé af „einræðis og alræðislöndum og hryðjuverkamönnum sem munu nota þessa tækni til að valda okkur tjóni“.
Nánar má lesa um viðtalið við Kasparov í Sunnudagsblaðinu.