Indverska lögreglan leitar að eigendum um 100 samfélagsmiðlaaðganga sem eru ásakaðir um að hafa deilt falsfréttum í kjölfar árása á moskur í norðausturhluta landsins. Árásirnar sem um ræðir áttu sér stað í októbermánuði í fylkinu Tripura. Þá réðust árásarmenn á fjórar moskur, nokkur heimili múslima og verslanir í eigu múslima.
Árásirnar virðast hafa verið framkvæmdar í hefndarskyni, í kjölfar þess að nokkrir hindúar voru myrtir í hinu múslimska Bangladesh.
Indverska lögregla segir að um sé að ræða 102 færslur sem deilt hafi verið í þeim tilgangi að hvetja til frekara ofbeldis og ýta undir átök á milli trúarhópa.
„Samfélagsmiðlanotendurnir dreifðu orðrómi, falsfréttum, fölskum myndskeiðum og ljósmyndum sem eru ekki einu sinni tengd því sem gerðist í Tripura,“ sagði lögreglumaður, sem óskaði nafnleyndar, í samtali við AFP í dag.
Lögreglan hefur, samkvæmt indverskum miðlum, óskað eftir því við samfélagsmiðlana Facebook, Twitter og YouTube að færslurnar verði fjarlægðar. Þegar hafa einhverjar þeirra verið teknar út af vefnum.