Listasafn falsana nefnist hugarfóstur listasmiðjunnar MSCHF, sem hefur aðsetur í Brooklyn í New York. Nýjasta uppátæki MSCHF var að selja 999 eftirlíkingar af teikningu eftir listamanninn Andy Warhol ásamt upprunalegu teikningunni án þess að kaupandinn vissi hvað hann hefði í höndunum.
MSCHF er vitaskuld borið fram „mischief“ og mætti þýða bellibrögð.
Á vefsíðunni museumofforgeries.org segir að MSCHF hafi keypt kúlupennateikningu eftir Warhol frá 1954 á 20 þúsund dollara (2,5 milljónir króna). Myndin er einföld, sýnir þrjár kvenverur dansa og heitir „Álfar“. Fyrir nokkrum árum var sama mynd seld hjá uppboðshúsinu Christie’s og fór á 8.000 dollara. Kaupendurnir forrituðu róbóta til að teikna myndina aftur og aftur á blað af sömu stærð og listamaðurinn notaði með sams konar bleki. Pappírinn var síðan meðhöndlaður þannig að ekki sæist munur á honum og pappírnum með upprunalega listaverkinu.
Á vefsíðu þeirra má sjá myndskeið af því hvernig þjarkinn teiknar myndirnar og notast er við ljós, hita, þrýsting og raka til að gera pappírinn ellilegan. Alls voru gerð 999 eintök. Upprunalega verkinu var síðan stungið í bunkann og segjast þeir, sem að gerningnum stóðu, ekki vita hvar það endaði.
„Ég held að gæti forvörður skoðað teikningarnar hlið við hlið gæti hann að lokum fundið upprunalegu teikninguna,“ sagði Kevin Wiesner, félagi í MSCHF, í tölvupósti til AFP. „En það er ólíklegt að það muni nokkurn tímann gerast.“
Teikningarnar þúsund voru síðan seldar á netinu á 250 dollara hver undir yfirskriftinni
„Mögulega raunverulegt afrit af „Álfum“ eftir Andy Warhol“ og seldust upp á augabragði. Kaupandinn á mynd, sem gæti verið eftir Warhol, en er þó líkast til eftirmynd.
Á heimasíðu MSCHF segir að tilgangurinn með þessu sé að gagnrýna hugmyndir sem gegnsýri markaðinn um að allt þurfi að vera „upprunalegt“ og „einstakt“. Afrakstur seljendanna eftir gjörninginn er 250.000 dollarar fyrir verk, sem kostaði þá 20.000 dollara.
„Markmið okkar er að „eyðileggja“ teikninguna með því að eyðileggja ábyrgðarkeðjuna,“ sagði Wiesner.