Mustafa al-Kadhemi, forsætisráðherra Íraks sagði að hann væri ómeiddur og kallaði eftir því að fólk héldi ró sinni eftir drónaárás á heimili hans snemma á sunnudag. Þrír drónar voru notaðir í banatilræðinu en tveir þeirra voru skotnir niður. Tveir lífverðir særðust í árásinni.
Kadhemi hefur verið við völd í landinu síðan í maí á síðasta ári. Árásin var framkvæmd á sama tíma og stjórnmálamenn í Írak ræða sín á milli um það hver mun ráða ríkjum í landinu eftir kosningar í síðasta mánuði. Útkoman var slæm fyrir flokkinn Conquest Fatah Alliance, sem styður Íran. Flokkurinn afneitaði niðurstöðunni og sagði að um kosningasvindl hefði verið að ræða.
Sigurvegari kosninganna, með fleiri en 70 þingsæti, var flokkur Moqtada Sadr, predikara sem rak kosningabaráttuna á þjóðernissinnuðum skilaboðum og gagnrýni á Íran.
Enginn hefur stigið fram og tekið ábyrgð á árásinni á forsætisráðherrann.