Danska ríkisstjórnin hefur mælt með því við þjóðþingið að Covid-19 verði aftur flokkuð sem samfélagsleg ógn og að svokallaðir kórónuveirupassar verði teknir upp á ný. Þetta kom fram í máli Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, í kvöld.
Það að flokka Covid-19 sem samfélagslega ógn á ný gerir ríkisstjórninni kleift að setja aftur á takmarkanir í landinu. Kórónuveirupassar eru heilbrigðispassar Danmerkur og vill ríkisstjórnin setja aftur upp þá kröfu að sýna þurfi gildan passa á skemmtistöðum, börum, veitingastöðum og á stórum viðburðum.
Á blaðamannafundi staðfesti Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, vilja ríkisstjórnarinnar. Kröfum um kórónuveirupassann var aflétt í september þegar öllum takmörkunum í landinu var aflétt.
„Við getum ekki látið vírusinn ganga lausan í Danmörku,“ sagði Frederiksen á fundinum.
Magnus Heunicke heilbrigðisráðherra staðfesti að þörf væri á gildum kórónuveirupössum á skemmtistöðum, kaffihúsúm, í strætisvögnum og innandyra þar sem boðið er upp á mat og drykk.
Einnig verður krafist þess að fólk framvísi passanum á viðburðum sem haldnir eru innandyra með yfir 200 gestum og utandyra með yfir 2.000 gestum.
Frederiksen hvatti einnig til þess að fleiri í Danmörku létu bólusetja sig gegn Covid-19. „Það er ekki hægt að segja það mikið skýrar. Þið sem eruð ekki enn bólusett, gerið það,“ sagði hún.