Níu látið lífið vegna flóða

Götur borgarinnar Chennai standa nú á kafi í vatni.
Götur borgarinnar Chennai standa nú á kafi í vatni. AFP

Níu hafa látið lífið og tveggja er saknað vegna flóða í Srí Lanka og suðurhluta Indlands en úrhellisrigning hefur nú staðið þar yfir í meira en tvær vikur.

Tæplega helmingur af landsvæði Srí Lanka hefur lent illa í óveðrinu og hafa svæðin í nálægð við hálendið orðið hvað verst úti. Búast má við fleiri flóðum á komandi dögum en samkvæmt upplýsingum frá veðurstofunni í Srí Lanka mun stormurinn nú færast í norðurátt að borginni Jaffna.

Götur á kafi í vatni

Fjórir létust vegna rigningar í fylkinu Tamil Nadu á Indlandi. Búið er að koma upp ríflega 150 hjálparbúðum til að útdeila mat og aðstoða þá sem hafa neyðst til að flýja heimili sín.

Götur í Chennai, höfuðborg Tamil Nadu, standa nú á kafi í vatni og hafa tré rifnað upp með rótum.

Meira en 250 manns létust í borginni þegar metúrkoma var árið 2015. Vísindamenn telja að öfgar í veðurfari muni færast í aukana í suðurhluta Asíu með loftslagsbreytingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert