Árásarmaður skotinn til bana í Ósló

Maðurinn ræðst að lögreglubifreið sem kom á vettvang. Lögregla reyndi …
Maðurinn ræðst að lögreglubifreið sem kom á vettvang. Lögregla reyndi fyrst að aka á hann en þegar hann gerði sig líklegan til að ráðast inn í bifreið lögreglu greip hún til vopna. Skjáskot/Myndskeið úr síma íbúa

Ríkislögreglustjóri Noregs hefur fyrirskipað að lögregla um allan Noreg gangi með skotvopn þar til annað verður ákveðið í kjölfar árásar í Thereses gate í Bislet-hverfinu í Ósló um klukkan níu í morgun að norskum tíma.

Maður, vopnaður stórum hníf, gekk þá berserksgang hálfnakinn, hljóp á eftir fólki og sýndi mjög ógnandi tilburði, að sögn fjölda vitna. Lögregla kom fljótlega á vettvang og gerði fyrst tilraun til að aka á árásarmanninn sem reyndi þá að ráðast til inngöngu í eina lögreglubifreiðina og lyktaði atlögunni með því að lögregluþjónar skutu manninn margsinnis og lést hann af sárum sínum á Ullevål-sjúkrahúsinu skömmu síðar.

„Við vitum líklega hver þetta var. Eins og stendur er engin ástæða til að ætla að árásarmennirnir séu fleiri,“ segir Tore Solberg lögregluvarðstjóri við norska ríkisútvarpið NRK og staðfestir um leið að árásarmaðurinn hafi verið úrskurðaður látinn. „Lögreglubifreið ók á manninn, til átaka kemur og hættulegra aðstæðna. Skotum var hleypt af,“ greinir Solberg enn fremur frá en einn lögreglumaður er sár eftir atburðinn.

Læstu sig inni í verslun

Rannsóknardeild í innri málefnum lögreglunnar, Spesialenheten for politisaker, hefur hafið rannsókn á skotvopnanotkun lögreglu eins og reglubundið er þegar norskir lögreglumenn hleypa af skotum við skyldustörf auk þess sem rannsóknarlögreglan Kripos aðstoðar við rannsóknina.

„Við erum nú á höttunum eftir fleiri vitnum að atburðinum auk þess sem við könnum hvort fleiri kunni að hafa hlotið sár,“ segir Solberg varðstjóri en fjöldi vitna sá til ferða hnífamannsins sem hljóp fáklæddur og viti sínu fjær eftir Thereses gate.

„Viðskiptavinirnir sögðust hafa séð mann í stuttbuxum með hníf. Þá áttuðum við okkur á að málið væri kannski alvarlegra en fyrst [þegar þeim var sagt af léttklæddum manni á hlaupum]. Við læstum þá hurðinni og stóðum svo bara og fylgdumst með þar til ró færðist yfir,“ segir Caroline Semb, starfsmaður í versluninni Normal við Thereses gate.

Virtist viti sínu fjær

Aurora Trygg, íbúi við götuna, segir aðstæður hafa verið ískyggilegar. „Ég upplifði þetta sem óhugnað, heyrði öskur og sá berfættan mann beran að ofan á hlaupum,“ segir hún frá og kveðst í kjölfarið hafa heyrt marga skothvelli.

Arne Heiberg Okkenhaug, nágranni hennar, segist hafa heyrt fjóra eða fimm skothvelli en áður hafði hann heyrt öskur og þegar hann leit út um gluggann blasti við honum sama sjón og Trygg lýsti, maður vopnaður hníf hljóp ber að ofan um götuna.

Nettavisen greindi fyrst frá málinu og kveðst blaðamaður þar, sem var á vettvangi, hafa séð árásarmanninn hlaupa á eftir konu nokkurri með brugðinn hníf. „Hann virtist viti sínu fjær af augnaráðinu að dæma. Þegar lögreglan kom á vettvang reyndi hún fyrst að keyra hann niður. Þeir [lögregluþjónarnir] komu honum upp að vegg. Svo skutu þeir hann mörgum skotum,“ segir blaðamaðurinn, Simen Lønning, af atburðarásinni í Bislet í morgun.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Nettavisen

NRK

VG

Dagbladet

TV2

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert