Maður á fertugsaldri, sem lögreglan í Ósló skaut til bana í morgun þegar hann réðst að vegfarendum í Bislet-hverfinu með stóran hníf á lofti, hlaut í desember í fyrra dóm fyrir Héraðsdómi Óslóar fyrir tilraun til manndráps auk þess sem dómsorð kvað á um nauðungarvistun hans á geðdeild í kjölfar árásar hans á Ankerbrua í borginni þar sem hann stakk mann í bakið og lagði til fjölda annarra með eggvopni.
„Við útilokum engar ástæður, en enn sem komið er bendir ekkert til þess að um hryðjuverk hafi verið að ræða,“ sagði Egil Jørgen Brekke yfirlögregluþjónn á blaðamannafundi lögreglunnar í Ósló nú fyrir skömmu um árásina.
Heimili mannsins, sem er rússneskur, reyndist vera örskammt frá vettvangi árásarinnar og vinnur tæknideild lögreglu nú að rannsóknum sínum þar. Brekke ítrekaði á fundinum það sem lögregla tjáði norskum fjölmiðlum í morgun, að um einangrað atvik væri að ræða og því ástæðulaust fyrir borgarbúa að óttast um öryggi sitt.
Í dómi héraðsdóms í fyrra kom fram að ákærði hefði rofið almannafrið með háttsemi sinni þegar hann hljóp öskrandi á eftir fólki með hníf á lofti, í vímu sem hann hefði sjálfur komið sér í, selvforskyldt rus eins og það var orðað í dómnum. Meðal annarra ákæruliða málsins var íkveikja mannsins á sínu eigin heimili fyrr sama dag.
Enn fremur hlaut hann dóm fyrir líkamsárás árið 2018 eftir að hafa veist að manni í miðbæ Óslóar með höggum og spörkum árið áður. Var refsingin í það sinnið talin hæfilega ákvörðuð 90 daga samfélagsþjónusta.
Lögregla skaut manninn sex sinnum í morgun þegar hann réðst að lögreglubifreið með hnífinn á lofti og lést hann af sárum sínum á Ullevål-sjúkrahúsinu. Lögregluþjónn varð fyrir minni háttar líkamstjóni við atlöguna og fer rannsóknardeild í innri málefnum lögreglu nú með rannsókn á beitingu skotvopna svo sem reglubundið er í slíkum tilvikum.