Ófrísk blaðakona frá Jemen lést í sprengjuárás á leið sinni upp á fæðingardeild. Eiginmaður hennar, sem ekið hafði bifreiðinni sem þau voru í, lifði árásina af en slasaðist alvarlega.
„Sprengju hafði verið komið fyrir í bíl blaðamannsins Mahmud al-Atmi sem sprakk svo í loft upp er hann ók eiginkonu sinni Rasha Abdallah upp á fæðingardeild,“ segir heimildarmaður innan stjórnarhersins í samtali við fréttastofu AFP.
Sprengingin átti sér stað í borginni Aden sem er í suðurhluta Jemen.
Hin 27 ára gamla blaðakona Abdallah og eiginmaður hennar höfðu bæði unnið hjá fjölda mismunandi fjölmiðla á svæðinu.
Fyrir eiga þau saman tveggja ára gamalt barn.
Enginn hefur lýst ábyrgð árásarinnar á hendur sér en Atmi segist gruna Houthi-uppreisnarmenn.
„Þeir reyndu að komast að því hvar ég ætti heima,“ segir hann við fréttastofu AFP.