Marcus Rashford, framherji Manchester United, hét því í dag að halda áfram herferð sinni til að hjálpa illa stöddum börnum eftir að hafa hlotið heiðursverðlaun Bresku konungsfjölskyldunnar, svokölluð MBE-verðlaun eða Member of the Order of the British Empire.
Vilhjálmur Bretaprins veitti honum verðlaunin við hátíðlega athöfn í Windsdor-kastala í dag en þau eru veitt þeim sem hafa haft jákvæð áhrif í starfi sínu. Meðal annarra verðlaunahafa eru söngvarinn Ed Sheeran, söngkonan Adele og fótboltamaðurinn Harry Kane. Þá fengu Bítlarnir MBE-orðuna árið 1965.
Rashford hefur verið áberandi í Bretlandi fyrir herferð sína til að tryggja að bágstödd börn fengju nægan mat meðan heimsfaraldurinn hefur staðið yfir.
Hann sagði í dag við athöfnina að hvatning hans væri að gefa börnum Bretlands það sem hann hafði ekki þegar hann ólst upp og lagði áherslu á að allir unglingar ættu skilið tækifæri.
„Ég er bara að gefa þeim tækifæri og mér finnst þau eiga skilið tækifærið, hvaða barn á ekki skilið tækifæri. Fyrir mér er það refsing fyrir þau að fá ekki hluti eins og máltíðir eða birgðir af bókum,“ sagði Rashford.
Rashford sagði breytingarnar sem hann sé að vinna að með herferð sinni vera litlar en að þær verði að stórum breytingum þegar ávinningurinn af þeim sést.
„Ég sé kynslóðina sem er að koma á eftir mér sem mjög sérstaka kynslóð.“