Starfsfólki NHS skylt að láta bólusetja sig

Allt starfsfólk í framlínu NHS verður gert skylt að þiggja …
Allt starfsfólk í framlínu NHS verður gert skylt að þiggja bólusetningu við kórónuveirunni. AFP

Breskir heilbrigðisstarfsmenn sem starfa í framlínunni fyrir hið opinbera (NHS) verða skyldaðir til að láta fullbólusetja sig við kórónuveirunni. Búist er við að tilkynning þess efnis verði gefin út fljótlega. BBC greinir frá.

Fresturinn til að láta bólusetja sig mun vera fram á næsta vor, til að gefa starfsfólki kleift að klára bólusetninguna að fullu. Áður hafði starfsfólki hjúkrunarheimila verið gert að þiggja bólusetningu en sá frestur rennur út næstkomandi fimmtudag.

Samkvæmt upplýsingum sem BBC hefur frá NHS eru um 80 til 100 þúsund starfsmenn óbólusettir.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar er tekin í kjölfar ráðgjafavinnu sem hófst í september en þá voru uppi vangaveltur um að skylda heilbrigðisstarfsfólk í framlínunni til að þiggja bæði bólusetningu gegn kórónuveirunni og árlegri inflúensu. Niðurstaðan varð hins hins vegar sú að starfsfólki verður eingöngu skylt að þiggja bólusetningu gegn kórónuveirunni. Sérstakar undantekningar verða gerðar af læknisfræðilegum ástæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert