Um þrjú þúsund Nýsjálendinga söfnuðust fyrir framan þinghúsið í Wellington, höfuðborg Nýja-Sjálands, í morgun til að mótmæla sóttvarnaaðgerðum til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar í samfélaginu.
Mótmælendur báru ýmist fána með áletruninni Trump 2020 eða skilti með skilaboð frá frumbyggjum maóra í landinu, þeim samfélagshópum sem hafa þurft að glíma við afleiðingar útgöngubanns og kennurum sem gætu misst vinnuna hafni þeir bólusetningu. Auk þeirra voru skilti á lofti með niðrandi skilaboðum í garð forsætisráðherrans Jacinda Ardern og fjölmiðla sem voru m.a. sakaðir um lygar.
Mótmælin voru friðsæl og yfirgáfu mótmælendur svæðið eftir að búið var að flytja „haka“-dans á lóð þinghússins, sem er hefðbundinn dans maóría og meðal annars notaður til að ógna andstæðingnum.
Að sögn lögreglunnar var enginn handtekinn en það þóttu mikil vonbrigði að sjá hve margir þátttakendur virtu ekki grímuskylduna, en megnið af mótmælendum bar engar grímur.
Ardern segir meirihluta þjóðarinnar styðja viðbragð ríkisstjórnar við útbreiðslu veirunnar en gripið hefur verið til harðra aðgerða í hvert sinn sem veiran fer á kreik, m.a. útgöngubann og þétt landamæraeftirlit. Virðist þetta hafa borið ágætan árangur í baráttunni við veiruna en einungis 31 dauðsfall er skráð af völdum Covid-19 í landinu.
Næstum 90% Nýsjálendinga hafa fengið a.m.k. fyrsta skammt af bóluefni. Hefur forsætisráðherrann gefið loforð fyrir því að veita íbúum landsins meira frelsi þegar 90% þjóðarinnar hafa verið fullbólusett. Óbólusettir einstaklingar munu þó áfram standa frammi fyrir einhverjum takmörkunum þegar kemur að skemmtanalífinu, ferðalögum og atvinnumöguleikum.