Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, segir ástandið á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands „óviðunandi“, en hundruð flóttamanna dvelja nú við landamærin og reyna að freista þess að komast til Póllands. AFP-fréttastofan greinir frá.
Mjög kalt er á svæðinu og fer hitastig undir frostmark á nóttunni. Bachelet segir flóttafólkið ekki eiga að þurfa að sofa aðra nótt undir berum himni. Talið er að jafnvel 3.000 til 4.000 flóttamenn til viðbótar séu á leið að landamærunum og talsmaður pólsku ríkisstjórnarinnar sagði blaðamönnum í gær að búist væri við því að staðan myndi versna á næstunni og að vopn kæmu þá við sögu. Um 50 flóttamenn hafa nú þegar verið handteknir.
„Það fyllir mig skelfingu að vita til þess að mikill fjöldi flóttafólks dvelji nú í örvæntingu sinni við hörmulegar aðstæður í ískulda á landamærum Hvíta-Rússlands og Póllands. Ég hvet ríkin til að grípa til tafarlausra aðgerða og leysa úr þessu óásættanlega ástandi,“ sagði Bachelet í yfirlýsingu sem hún sendi frá.
Margir flóttamannanna sem reyna að komast til Póllands eru á flótta undan fátækt í ríkjum Mið-Austurlanda. Þeir segja Hvít-Rússa ekki leyfa þeim að komast aftur til borgarinnar Minsk og fljúga heim á meðan Pólverjar leyfi þeim ekki að komast yfir landamærin og sækja um hæli.
Gagnrýnendur á Vesturlöndum hafa sakað Hvíta-Rússland um að nota flóttamenn sem pólitísk peð með því lokka fólk frá Mið-Austurlöndum til Hvíta-Rússlands og senda þá yfir landamærin til Evrópusambandsins í hefndarskyni vegna refsiaðgerða.
Þá hefur Pólland, sem er aðili bæði að ESB og NATO, verið harðlega gagnrýnt fyrir afstöðu sína í flóttamannamálum undanfarin ár.