Fjögur ljón greindust með veiruna

Ljónin eru nú komin í einangrun í gryfjunni sinni.
Ljónin eru nú komin í einangrun í gryfjunni sinni. AFP

Fjögur ljón hafa greinst jákvæð fyrir kórónuveirusýkingu í náttúrulífsdýragarði í Singapúr eftir að hafa smitast af sýktu starfsfólki. Ákveðið var að skima dýrin eftir að bera fór á einkennum á borð við hósta og hnerra hjá þeim um helgina.

Búið er að koma ljónunum fyrir í einangrun í gryfjunni þeirra en að sögn talsmanns dýragarðsins heilsast þeim ágætlega miðað við ástandið. Búist er við að þau muni ná fullum bata.

Þá hefur einnig annað ljón í dýragarði nærri þessum orðið veikt. Hefur verið tekin ákvörðun um að skima dýrið.

Þekkt er að dýr geti smitast af kórónuveirunni og hafa önnur tilfelli komið upp þar sem m.a. ljón, tígrisdýr og górillur hafa greinst jákvæð í dýragörðum. Ekki er þó talin mikil hætta á því að dýrin beri veiruna í menn.

Útbreiðsla faraldursins í Singapúr er nú í hæstu hæðum en um tvö til þrjú þúsund smit greinast á dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert