Baldwin og framleiðendur Rust kærðir fyrir vanrækslu

Alec Baldwin hefur verið kærður fyrir vanrækslu vegna voðaskotsins.
Alec Baldwin hefur verið kærður fyrir vanrækslu vegna voðaskotsins. AFP

Leikarinn Alec Baldwin var í dag kærður ásamt öðrum framleiðendum kvikmyndarinnar Rust fyrir að hafa vanrækt skyldur sínar, en sú vanræksla á að hafa leitt til þess að Halyna Hutchins, kvikmyndatökumaður myndarinnar, varð fyrir voðaskoti af hálfu Baldwins og lést. 

Kæran nær einnig til Hönnuh Gutierrez-Reed, sem hafði yfirumsjón með skotvopnum á tökustað myndarinnar, en lögfræðingar hennar sögðu í yfirlýsingu að reynt væri að gera hana að blóraböggli fyrir andláti Hutchins. 

Kærandi er Serge Svetnoy, sem fór með yfirumsjón í lýsingu myndarinnar. Segir í kæru hans m.a. að byssan sem Baldwin fékk í hendurnar hefði aldrei átt að hafa alvöru byssukúlu og að engin ástæða væri fyrir því að slíkt skotfæri ætti yfirhöfuð að vera á tökustað. 

Serge Svetnoy (t.h.) ásamt lögmanni sínum Gary Dordick.
Serge Svetnoy (t.h.) ásamt lögmanni sínum Gary Dordick. AFP

Segir jafnframt í kærunni að Svetnoy hafi fundið fyrir því þegar byssukúlan flaug framhjá sér, og að hann hafi fengið byssupúður og ýmsar minni agnir úr byssunni í andlitið, en hann stóð við hlið Hutchins þegar skotið reið af. 

Segja að um skemmdarverk hafi verið að ræða

Lögfræðingar Hönnuh Gutierrez-Reed, sögðu hins vegar í yfirlýsingu sinni vegna kærunnar að þeir hefðu beðið um fulla rannsókn á öllum hliðum málsins, m.a. því hvernig virk skotfæri hefðu komist á tökustað og endað með óvirkum skotfærum í kassa. 

„Við erum sannfærðir um að þetta var skemmdarverk og að Hannah sé blóraböggull. Við trúum að átt hafi verið við vettvanginn áður en lögreglan kom á staðinn,“ segir í yfirlýsingu lögfræðinganna. 

Þá hefði Gutierrez-Reed boðist til þess að ræða við rannsakendur málsins og deila mikilvægum upplýsingum um málið með þeim. 

Mary Carmack-Altwies, saksóknari í Sante Fe-sýslu, sagði hins vegar við ABC-fréttastofuna að engin sönnunargögn lægju fyrir um samsæri af nokkru tagi í málinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert