Kína og Bandaríkin hafa ákveðið að auka samstarf sín á milli í loftslagsbaráttunni næsta áratuginn. Frá þessu greindi Xie Zhenhua, fulltrúi kínverja í loftslagsmálum, á loftslagsráðstefnunni COP26 í Glasgow í dag.
„Báðir aðilar viðurkenna að grípa þurfi til róttækari aðgerða í loftslagsmálum til að hægt sé að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins og höfum við ákveðið að vinna að því í sameiningu,“ tilkynnti Zhenhua óvænt á blaðamannafundi á ráðstefnunni.
Kína og Bandaríkin losa mest allra þjóða af gróðurhúsalofttegundum en saman bera löndin tvö ábyrgð á nærri 40% allri kolefnismengum í heiminum, að því er fréttastofa AFP greinir frá.
Áætlanir landanna tveggja um auknar aðgerðir í baráttunni verði „áþreifanlegar“, að sögn Zhenhua. Þá séu báðir aðilar tilbúnir að vinna að frágangi á reglubók Parísarsamkomulagsins.
Parísarsamkomulagið frá 2015 skyldar þær 195 þjóðir sem skrifuðu undir það til að vinna saman að því að takmarka hnattræna hlýnun af mannavöldum með því að minnka losun gróðurhúsalofftegunda til muna.
Zhenhua sagði Kína og Bandaríkin haldið 30 fjarfundi um samstarfið á síðastliðnum 10 mánuðum.
„Sem tvö stærstu stórveldi heimsins verða Kína og Bandaríkin að taka ábyrgð og vinna saman í loftslagsbaráttunni.“
Í síðustu viku sagði Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, að með því að sleppa því að mæta á loftslagsráðstefnuna COP26 hafi Xi Jinping, aðalritari kínverska kommúnistaflokksins, „gengið í burtu“ frá loftslagsvandanum.
Kína svaraði fyrir sig en síðan þá virðast aðilarnir tveir hafa sæst, fyrir komandi viðræður í næstu viku.
„Þessi sameiginlega yfirlýsing sýnir að Kína og Bandaríkin eiga ekki annarra kosta völ en að vinna saman,“ sagði Zhenhua.
Fulltrúar í Glasgow semja nú um hvernig eigi að innleiða markmið Parísarsamkomulagsins og hvernig koma megi þróunarríkjum til aðstoðar í loftslagsbaráttunni.