Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, tilkynnti í dag afsögn sína, en við því hafði verið búist frá því vantrauststillaga var samþykkt gegn ríkisstjórn hans fyrr í sumar. Með afsögn sinni greiðir hann götu væntanlegs arftaka síns, Magdalenu Andersson. AFP-fréttastofan greinir frá.
Andersson verður fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Svíþjóðar, takist henni að fá stuðning þingsins. Mun hún þá gegna embættinu að minnsta kosti fram að næstu þingkosningum sem fyrirhugaðar eru í september á næsta ári.
Löfven, sem hefur gegnt embætti forsætisráðherra í sjö ár, steig til hliðar sem formaður Jafnaðarmannaflokksins á flokksþingi í síðustu viku og var Andersson, sem gegnt hefur starfi fjármálaráðherra, kjörin í hans stað.