Joe Biden, Bandaríkjaforseti, mun tilnefna hjartalækninn og vísindamanninn Robert Califf til að leiða matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna. Hvíta húsið greindi frá þessu í dag.
„Califf leiddi FDA (matvæla- og lyfjaeftirlitið) undir þáverandi forseta Baracks Obama árið 2016 og 2017, og hefur reynslu og sérfræðiþekkingu til að leiða eftirlitið á mikilvægum tíma í baráttu þjóðar okkar til að binda enda á faraldur Covid-19,“ sagði Hvíta húsið í tilkynningu sinni.
Biden þakkaði einnig Janet Woodcock, sem gegndi stöðunni til bráðabirgða, fyrir forystu sína á síðasta ári en forsetinn beið fram á síðustu stundu með að velja og valdi Califf þremur dögum áður en kjörtímabil Woodcock rann út.
Með tæpan meirihluta í öldungadeildinni, í krafti varaforsetans Kamölu Harris, er Biden langt frá því að hafa frjálsar hendur yfir slíkum skipunum. Califf verður að vera staðfest af öldungadeildinni og hófsamur öldungadeildarþingmaður demókrata, Joe Manchin, hefur þegar lýst yfir harðri gagnrýni á val Biden.
Manchin, sem einnig hefur hindrað nokkur af helstu efnahags- og félagslegu verkefnum Biden, sagði í yfirlýsingu á föstudag að Califf hefði sterk tengsl við lyfjaiðnaðinn.