Austurríkismenn munu á næstu dögum setja á útgöngubann fyrir alla þá sem eru óbólusettir eftir mikla fjölgun kórónuveirusmita þar í landi. Metfjöldi smita greindist síðastliðinn sólarhring, eða 11.975 smit. BBC greinir frá.
Gripið verður til hertra aðgerða í efri héruðum Austurríkis frá og með mánudeginum ef leyfi til þess fæst frá ríkisstjórn landsins. Í Salzburg er einnig búist við hertum aðgerðum.
Alexander Schallenberg, kanslari Austurríkis, segir óumflýjanlegt að setja útgöngubann fyrir alla óbólusetta á landsvísu. Ekki sé hægt að láta tvo þriðju íbúa landsins líða fyrir það að minnihlutinn vilji ekki láta bólusetja sig.
Um ein og hálf milljón manna býr í efri héruðum landsins, sem hafa landamæri að Þýskalandi og Tékklandi. Þar er hlutfall bólusettra lægst og langflest smit. Kórónuveirunefnd landsins hefur varað við því að um sé að ræða ógn sem verði að taka alvarlega.
Óbólusettum í Austurríki hefur nú þegar verið bannað að fara á veitingastaði, í kvikmyndahús, skíðalyftur og á hárgreiðslustofur, en líkt og áður segir verður gripið til allsherjar útgöngubanns fyrir þennan hóp á mánudaginn. Óbólusettir mega þá ekki yfirgefa heimili sín nema til að sækja vinnu, kaupa í matinn og fara í líkamsrækt. Gagnrýnendur hafa þó varað við því að erfitt geti orðið að framfylgja banninu.