Hleyptu lofti úr dekkjum bíla í mótmælaskyni

Frá loftslagsmótmælum í Glasgow-borg.
Frá loftslagsmótmælum í Glasgow-borg.

Aðgerðasinnar í loftlagsmálum tóku lögin í sínar eigin hendur í gær þegar þeir hleyptu lofti úr dekkjum nokkurra lúxusbifreiða sem lagt hafði verið í vesturenda Glasgow-borgar, þar sem loftslagsráðstefnan COP26 fer nú fram. Þá skildu þeir einnig eftir miða á bifreiðunum þar sem þeir saka eigendur þeirra um að hafa framið loftslagsbrot.

„Bifreiðin þín er hluti af næststærstu uppsprettu kolefnislosunar í heiminum á síðastliðnum áratug. Þess vegna höfum við ákveðið að taka hana úr umferð með því að leysa loftið úr dekkjunum hennar,“ stendur meðal annars á miðanum.

Hleyptu lofti úr dekkjum sextíu bifreiða

Lögreglunni í Skotlandi hefur verið gert viðvart um verknaðinn og hefur hún aukið eftirlit á svæðinu, að því er greint frá í frétt BBC.

Þúsundir aðgerðasinna hafa ferðast til Glasgow á síðastliðnum vikum vegna loftlagsráðstefnunnar COP26 sem lýkur í dag.

Jamie MacConnacher lyfjafræðingur er einn þeirra sem varð fyrir barðinu á aðgerðasinnunum sem leyst höfðu loftið úr dekkjunum á Land Rover bifreiðinni hans í gær.

„Ég held það sé ekki rétta leiðin að einblína á almenna borgara hvað þetta varðar. Það geta verið góðar og gildar ástæður fyrir því að fólk keyrir bifreiðar af þessu tagi,“ segir hann í útvarpsviðtali.

„Ég skil að það sé þörf á breytingum og ég er alveg sammála því. Ég myndi aka um á rafmagnsbíl ef ég gæti en það er engin hleðslustöð nálægt heimilinu mínu svo það myndi ekki ganga upp fyrir mig.“

Á miða sem skilinn var eftir á bifreið MacConnacher stóð að bifreiðin hans væri að „eyðileggja loftslagið“, sérstaklega í þróunarríkjum heimsins.

Reiðir sig á stærri bifreið til að komast í og úr vinnu

Hópur aðgerðasinna sem kalla sig Tyred of SUVs (e. þreytt á lúxusbifreiðum) hafa lýst ábyrgð á verknaðinum á hendur sér og sagst hafa leyst loftið úr um sextíu bifreiðum í efnameiri hverfum borgarinnar.

Í útvarpsviðtali við BBC segist hópurinn hafa viljað senda efnaðra fólki skýr skilaboð.

„Þetta veldur kannski smá, tímabundnum óþægindum fyrir þessa aðila en þetta mun ekki hafa mikil neikvæð áhrif á daglegt líf þess. Það sem mun hins vegar hafa áhrif á líf fólks og leiða það til dauða á endanum er hlýnun jarðar af völdum ríka fólksins, þ.e. eigendur lúxusbifreiða. Það eru skilaboðin sem við vorum að reyna senda með þessu,“ segir einn talsmaður hópsins í viðtalinu.

MacConnacher, sem þarf að keyra um 40 kílómetra á hverjum degi til að komast í vinnuna, segist þurfa að vera á stærri bifreið þar sem hann þarf oft að aka í erfiðum aðstæðum á veturna.

Vegna gjörnings aðgerðasinnanna þurfti hann að láta blása lofti í dekkin á bifreiðinni sinni og varð því 45 mínútum of seinn í vinnuna.

„Þessu fylgir kannski enginn kostnaður fyrir mig en þetta eru samt hálfgerð eignaspjöll. Ég þarf að komast í vinnunna og sem betur fer varð ég ekki mikið seinni í vinnuna en þetta. Ef ég hefði ekki komist í loftdælu þá hefði ég getað orðið mörgum klukkutímum of seinn sem hefði verið mjög slæmt þar sem margir kúnna minna þurfa að geta leyst lyfin sín út strax,“ segir hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert