Þriggja vikna takmarkanir í Hollandi

Mark Rutte forsætisráðherra Hollands.
Mark Rutte forsætisráðherra Hollands. AFP

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, mun lýsa yfir í landinu fyrstu takmörkunum í Vestur-Evrópu það sem af er vetri. Takmarkanirnar munu gilda í þrjár vikur og munu helst hafa áhrif á verslanir, íþróttaviðburði og veitingastaði.

Brugðist er við metfjölda smita þar í landi en innlögnum á gjörgæslu hefur fjölgað mikið, þar sem um fjörutíu prósent gjörgæslurúma eru í notkun.

Flest lönd Evrópu glíma nú við fjölgun Covid-19 tilfella, sem er að hluta til rakið til lágs hlutfalls bólusettra í sumum Vestur-Evrópulöndum.

Takmarkanir í gildi á laugardag

Samkvæmt fréttum í hollenskum fjölmiðlum samþykkti bráðabirgðastjórn seint í gær að þriggja vikna takmarkanir myndu hefjast á laugardagskvöld. Verslanir sem ekki eru skilgreindar sem nauðsynjaverslanir, kaffihús, veitingastaðir og hótel þurfa á meðan á útgöngubanninu stendur að loka klukkan sjö á kvöldin.

Íþróttaviðburðir fara enn fram fyrir luktum dyrum en leikur Hollands í knattspyrnu gegn Noregi í undankeppni HM fer fram á þriðjudag og verða því engir áhorfendur á þeim leik.

Enn á eftir að taka endanlega ákvörðun um takmarkanir fyrir kvikmyndahús og leikhús, ásamt áætlunum um að núverandi Covid-passi verði einungis gefinn út til þeirra sem hafa verið bólusettir eða hafa náð sér af Covid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert