Varð fyrir piparúða í hatursárás

Gullverðlaunahafinn Sunisa Lee.
Gullverðlaunahafinn Sunisa Lee. AFP

Bandaríski gullverðlaunahafinn á Ólympíuleikunum, Sunisa Lee, segist nýlega hafa orðið fyrir piparúða í árás tengdri kynþáttahatri sem var gerð á hana og vini hennar í Los Angeles.

Lee sagði í viðtali við PopSugar að hún og vinir hennar hefðu verið að bíða eftir Uber-leigubíl þegar bíll ók að þeim. Þeir sem sátu í honum hrópuðu ókvæðisorð að þeim, auk þess sem hún fékk á sig piparúða á handlegginn þegar bílnum var ekið í burtu.

„Ég var mjög reið en ég gat ekkert gert vegna þess að þeir brunuðu í burtu,” sagði Lee, sem á ættir að rekja til Hmong-þjóðarbrotsins.

Lee vann til gullverðlauna í fimleikum á Ólympíuleikunum í Tókýó fyrr á þessu ári.

Ofbeldi gagnvart fólki af asískum uppruna jókst mjög í Bandaríkjunum í fyrra, samkvæmt tölfræði bandarísku alríkislögreglunnar, FBI. Aðgerðasinnar segja ástæðuna fyrir því vera talsmáti Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem kallaði Covid-19 ítrekað „Kínaveiruna”.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert