Þriðju drög samnings um aðgerðir sem tryggja að hnattræn hlýnun haldist undir 1,5 gráðum frá iðnbyltingu eru tilbúin. Fá ríkin nú tækifæri til þess að taka afstöðu til þess hvort þau gangist við honum eður ei.
Tvennt er enn verulega umdeilt; annars vegar ákvæðið að útrýma notkun jarðefnaeldsneytis og hins vegar að taka út ákvæðið um bótaskyldu þróuðu ríkjanna. Þrátt fyrir það virtist nokkur samstaða um að samningurinn væri of mikilvægur til að gangast ekki við honum.
Alok Sharma, forseti loftslagsráðstefnunnar COP26, hvatti fulltrúa allra þjóða til að leggja til hliðar kappsemi sína að fá sem mest út úr samningnum fyrir sitt heimaland og meta frekar hvort samningurinn sé góður samningur fyrir heimsbyggðina í heild. „Við stöndum saman og föllum saman.“
Í kjölfarið tóku fjölmargir fulltrúar til máls, þá fyrst fulltrúi Gíneu sem lýsti yfir að það væru vonbrigði að ákvæðið um bótaábyrgð þróaðra ríkja gagnvart þróunarlöndum hefði ekki hlotið brautargengi. Sambærileg sjónarmið mátti heyra hjá fulltrúum fleiri þróunarlanda.
Fulltrúi Bolivíu lýsti því yfir að land hans myndi styðja við skjalið sem kynnt hafði verið en gagnrýndi á sama tíma að það væri engin lyst hjá þróuðu ríkjunum að veita þróunarlöndunum nauðsynlegan fjárhagslegan stuðning til þess að standa við skuldbindingarnar. Hann orðaði það sem svo að þróuðu ríkin stæðu í sögulegri skuld við þróunarlöndin.
Fulltrúi Indlands vakti athygli á því að þróunarríkin ættu rétt á hlutdeild í mengunarkvótanum sem þróuðu ríkin hafa nú þegar nýtt sér til hins ýtrasta.
Með þessu lýsti hann yfir óánægju með samningsákvæðið um að útrýma notkun á jarðefneldsneyti. Kína og Suður-Afríka tóku undir með Indlandi en fulltrúi Suður-Afríku sagðist ekki trúa á að þá nálgun að láta eitt ganga yfir alla.
Frans Timmerans, fulltrúi Evrópusambandsins, hlaut mikið lófatak eftir sína ræðu, þar sem hann sagðist óttast að fulltrúarnir misstigju sig síðustu metra maraþonsins. Hann sagðist skilja að þróunarlöndin vildu meiri fjárhagsaðstoð og benti á að þetta væri bara byrjunin.
„Börnin okkar og barnabörn munu ekki fyrirgefa okkur ef við bregðumst þeim í dag,“ sagði hann svo og biðlaði til annarra ríkja að gangast við sáttmálanum. Norðmenn tóku undir þessi orð.
Fulltrúi Túvalú lagði áherslu á að svar þjóðarleiðtoganna við samkomulaginu mætti ekki vera háð því hvort þeir teldu sig eiga kost á endurkjöri. Loftslagsváin þekkti ekki pólitík, en að svara henni væri nauðsynlegt fyir mannkynið. Hann sagðist eiga þrjú barnabörn og gæti hann sagt þeim að í Glasgow hefði tekist að gera samning sem myndi tryggja framtíð þeirra væri það besta jólagjöf sem hann gæti nokkurn tíma gefið þeim.
John Kerry talaði fyrir hönd Bandaríkjanna og áréttaði að Bandaríkin vildu bæta úr því tjóni sem þróunarríkin hefðu orðið fyrir og gera sitt besta til að tvöfalda fjárhagsaðstoðina til þeirra, þrátt fyrir að bótaákvæðið hefði verið tekið út.
Hann benti svo á að það væri einkenni góðra samninga að enginn einn væri fullkomlega sáttur, en það væri mikilvægt að hugmyndin um hið fullkomna kæmi ekki í veg fyrir það góða.
Að lokum sagði Kerry að leiðtogarnir sem væru samankomnir á ráðstefnunni væru í fágætri forréttindastöðu að taka ákvörðun um líf eða dauða, ákvörðun sem hefði áhrif á jörðina í heild.