Sænski umhverfisaðgerðasinninn Greta Thunberg sagði í twitterfærslu sinni í kvöld að loftslagsviðræður Sameinuðu þjóðanna á COP26-ráðstefnunni hefðu ekki skilað neinu nema „bla, bla, bla“ eftir að þjóðir náðu málamiðlunarsamningi í Glasgow í dag.
„COP26 er lokið. Hér er stutt samantekt: Bla, bla, bla. Raunverulega vinnan heldur áfram fyrir utan þessi fundarherbergi. Og við munum aldrei gefast upp, aldrei,“ skrifaði formaður hreyfingarinnar „föstudagar fyrir framtíðina“, eða Fridays for Future, á Twitter.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Thunberg lýsir yfir óánægju sinni með loftslagsráðstefnuna en hún hafði áður lýst ráðstefnunni sem „einu stóru klúðri“ á einum af fjölmennum mótmælum sem haldin voru í Glasgow meðan á ráðstefnunni stóð.
Allir leiðtogar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna samþykktu nú fyrir stundu nýjan loftslagssamning á ráðstefnunni, en ráðstefnan, sem áætlað hafði verið að myndi klárast í gær, dróst á langinn vegna erfiðra samningsviðræða.
Er þetta fyrsti loftslagssamningurinn þar sem skýrt er kveðið á um að draga úr kolanotkun. Orðalagið var hins vegar tónað niður að kröfu Indlands og Kína á lokametrunum og breytt úr því að kolanotkun yrði hætt í áföngum í að dregið yrði úr henni.
Margir urðu fyrir vonbrigðum með þessa breytingu en hún var samþykkt til að vernda önnur mikilvæg ákvæði.
Vísindamenn telja að þær aðgerðir sem voru samþykktar dugi skammt til að sporna við hlýnun jarðar, en ákveðið var að markmiðið væri að halda hlýnun jarðar undir 1,5 til 2 gráðum, líkt og Parísarsáttmálinn kveður á um.
Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, segist sáttur við að samkomulag hafi náðst en þetta sé hins vegar ekki nóg. „Við erum enn á barmi stórslyss í loftslagsmálum,“ sagði hann eftir að samningurinn var samþykktur.
Alok Sharma, forseti COP26, var tárvotur þegar þegar niðurstaðan varð ljós og baðst afsökunar á því hvernig málin hefðu þróast.