Fimm stjörnu hótelið í Mayfair hverfi Lundúnaborgar, Claridge's mun þurfa að sjá á eftir yfirmatreiðslumeistara veitingastaðar hótelsins, Daniel Humm.
Hótelið var ekki tilbúið til að fylgja Humm í þeirri hugsjón að bjóða aðeins upp á vegan rétti á veitingastaðnum og sniðganga þar með allar dýraafurðir. Þetta kemur fram í frétt Guardian.
Hótelið birti yfirlýsingu á Twitter aðgangi sínum þar sem því var lýst yfir að það beri virðingu fyrir þá matreiðslustefnu sem Humm vildi boða, en það sé ekki sú leið sem hótelið kæri sig um að fara.
Veitingastaður Claridge's ber nafnið Davies and Brook. Þar er boðið upp á fjögurra rétta matseðil á 125 pund (22 þúsund krónur), sem samanstendur í dag meðal annars af kavíar og andalifur.
Daniel Humm hóf störf hjá Claridge's árið 2019 og hefur því rekið veitingastaðinn á þessum einkennilegu tímum heimsfaraldursins.
Hann vildi gera breytingar á stefnu staðarins en yfirmenn hans óttuðust að það gæti komið reglulegum viðskiptavinum hótelsins í uppnám.
Humm rekur einnig þriggja michelin stjörnu veitingastað í New York í Bandaríkjunum, sem hann gerði að vegan stað í fyrra, og rökstuddi þá ákvörðun á heimasíðunni með þeim orðum að nútíma matreiðsla væri einfaldlega ekki sjálfbær.
Hann er nú staddur á COP26 ráðstefnunni þar sem hann kynnti þessa hugsjón sína fyrir þjóðarleiðogum, en Humm trúir ekki á að það sé framtíð í áframhaldandi kjötneyslu.