Glen de Vries, meðstofnandi Medidate solutions, sem fór ásamt William Shatner út í geim hinn 13. október, lést í flugslysi á fimmtudag.
Hann var ásamt Thomas Fischer, eiganda flugskólans Fischer Aviation, í lítilli flugvél sem hrapaði í norðurhluta New Jersey í Bandaríkjunum á fimmtudaginn. Þetta kemur fram í frétt the Guardian.
Hópurinn sem fór saman út í geim í október samanstóð af Glen de Vries, William Shatner, Audrey Powera og Chris Boshuizen.
Blue Origin, fyrirtækið að baki geimferðunum, sendi í kjölfar slyssins frá sér yfirlýsingu þar sem það segist miður sín að heyra af örlögum Glens de Vries.
Hann hafi fært mikla gleði inn í geimfarahópinn og ástríða hans fyrir flugi verið óviðjafnanleg. Hans verði lengi minnst og sú minning heiðruð.
Slysið sætir nú rannsókn hjá öryggisráði samgöngumála Bandaríkjanna.