Skólum verður lokað í viku í Delí, næststærstu borg Indlands, frá og með mánudeginum vegna mengunar.
Ríkisgögn sýna að mengun í borginni hafi upp á síðkastið farið upp í 437 stig af 500 mögulegum á vísitölumælikvarða sem stuðst er við til að meta loftgæði.
Því var ákveðið að loka skólum borgarinnar svo að börnin þurfi ekki að fara út úr húsi og anda að sér svo menguðu andrúmslofti. Kennslustundir munu þó fara fram í streymi svo börnin missi ekki úr kennslu.
Þá hefur einnig verið hætt við allar byggingaframkvæmdir í borginni frá fjórtánda til sautjánda nóvember, af þessari sömu ástæðu.
Ríkisstarfsmenn hafa fengið þau fyrirmæli að vinna heima og tilmælum verður beint til einkaaðila að nýta sér þennan sama kost fyrir sína starfsmenn eftir fremsta megni.