Um helgina taka gildi ný lög í Portúgal sem eiga að hindra atvinnurekendur í því að hafa samband við starfsfólk sitt utan vinnutíma og fylgjast sérstaklega með fjarvinnu þess.
Þannig taka Portúgalar af skarið í að virkilega setja einhver lög í tengslum við fjarvinnu sem fjölmargir skrifstofustarfsmenn víða um heim hafa neyðst til að laga sig að vegna kórónuveirufaraldursins. New York Times greinir frá.
Lögin skylda einnig atvinnurekendur til að taka þátt í rafmagns- og netreikningum starfsmanna sinna sem vinna í fjarvinnu. Er þetta ein leið ríkisstjórnarinnar í Portúgal til að stuðla að betra jafnvægi á milli vinnu og einkalífs.
Samkvæmt lögunum geta atvinnurekendur átt á hættu að vera sektaðir fyrir að hafa samband við starfsmenn utan hefðbundins vinnutíma, nema í neyðartilfellum. Þá er fyrirtækjum gert skylt að tryggja að starfsmenn í fjarvinnu komi á vinnustaðinn að minnsta kosti einu sinni á tveggja mánaða fresti til að hitta yfirmenn og samstarfsfélaga, til að koma í veg fyrir algjöra einangrun.
Lögin gefa foreldrum barna undir átta ára einnig heimild til að vinna heiman frá sér, án sérstaks samþykkis yfirmanns.
Milljónir manna hafa unnið heiman frá sér í næstum tvö ár en Portúgal er eitt fárra ríkja til að bregðast við auknum kostnaði og álagi sem því fylgir á starfsmenn.