Náðaður eftir 26 ár í fangelsi

Ríkisstjóri Norður Karólínu, Roy Cooper, náðaði Sharpe að fullu eftir …
Ríkisstjóri Norður Karólínu, Roy Cooper, náðaði Sharpe að fullu eftir að hafa farið vandlega yfir mál það sem kom honum í fangelsi. AFP

Dontae Sharpe, sem saklaus afplánaði 26 ára fangelsisvist í Bandaríkjunum, hefur nú hlotið náðun.

Hann var dæmdur í fangelsi á sínum tíma fyrir morðið á George Radcliffe, en mánuðum eftir réttarhöldin breytti sjónarvottur vitnisburði sínum. Þrátt fyrir það hefur náðunarferlið tekið rúmlega tvo áratugi.

Ríkisstjóri Norður Karólínu náðaði Sharpe að fullu eftir að hafa farið vandlega yfir mál það sem kom honum í fangelsi.  Í tilkynningu er haft eftir honum að hann telji þá sem hafa ranglega verið sakfelldir, líkt og Sharpe, eigi rétt á að óréttlætið sé fyllilega og opinberlega viðurkennt. 

Kerfið sé spillt

Sharpe lýsti því hvernig náðunin hefði létt af sér þungri byrði, einkum vegna þess að nú sé orðspor fjölskyldu hans borgið. 

Nú þegar full náðun hefur gengið í gegn kann Sharpe einnig að geta sótt bætur frá ríkinu. „Ég er ekki fyllilega frjáls meðan það er enn saklaust fólk í fangelsi og fólk sem bíður náðunar eftir rangar sakagiftir,“ segir Sharpe í samtali við fréttastofu BBC. 

Hann segist jafnframt þekkja menn frá því hann var í fangelsi, sem séu í sömu stöðu og hann. Kerfið sé spillt og breytinga sé þörf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert