Þrír látnir eftir sporðdrekastungur

Sporðdrekar hafa valdið miklum usla í Egyptalandi síðustu daga.
Sporðdrekar hafa valdið miklum usla í Egyptalandi síðustu daga. Ljósmynd/Colourbox

Sporðdrekar hafa orðið þremur að bana í borginni Aswan í suðurhluta Egyptalands á síðustu dögum eftir að þeir bárust inn á götur borgarinnar og heimili fólks með miklu storm- og vatnsviðri. Að minnsta kosti 450 til viðbótar hafa verið stungnir af sporðdrekum og slasast af þeirra völdum. BBC greinir frá.

Mjög vont veður var á svæðinu í gær, í grennd við ána Níl, þrumur, eldingar og haglél.

Heilbrigðisstofnanir í borgum og þorpum í grennd við fjöll og eyðimerkur hafa fengið aukaskammta af móteitri og læknar hafa verið kallaðir út til að gefa sjúklingum móteitur. Þá hefur fólk verið hvatt til að vera heima og forðast svæði þar sem trjágróður er mikill.

Stungur af völdum sporðdreka eru sjaldan lífshættulegar en ung börn og eldra fólk er í mestri hættu á að fá alvarleg eitrunarviðbrögð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert