Ekvadorskir fangar í tveimur mismunandi óvinagengjum réðust hverjir að öðrum í gær með skotvopnum, hnífum og sprengjum með þeim afleiðingum að 68 létust. Þetta er í sama fangelsi og 119 fangar létu lífið í sams konar blóðbaði í september.
Yfirvöld í Guayaquil-borg tilkynntu seint í gær að þau höfðu náð yfirráðum yfir fangelsinu á nýjan leik eftir að upplausnin hafði náð hámarki.
Óeirðirnar hófust um klukkan 19 á staðartíma á föstudag þegar fangar tóku að ráðast hver gegn öðrum með sveðjum og heyra mátti sprengingar og kúlnahríð.
Auk þeirra 68 sem biðu bana særðust 25 fangar í blóðbaðinu, eins og fangelsismálayfirvöld í Ekvador tilkynntu á twittersíðu sinni.
Átökin eru sögð hafa sprottið upp við það að Tiguerones-gengið „missti“ leiðtoga sinn, en honum var sleppt úr haldi hafandi afplánað dóm sinn fyrir að stela varahlutum í bíla.
Það var þá sem önnur gengi reyndu að koma höggi á Tiguerones vegna þess að leiðtogi þeirra var á bak og burt úr fangelsinu. Talsmaður fangelsismálayfirvalda segir að markmið með árásunum hafi ekki verið neitt annað en að skapa glundroða innan veggja fangelsisins.