68 fangar létust í blóðbaði í Ekvador

Lögreglumaður stendur við hliðina á látnum fanga eftir að yfirvöld …
Lögreglumaður stendur við hliðina á látnum fanga eftir að yfirvöld náðu aftur stjórn yfir fangelsinu. AFP

Ekvadorskir fangar í tveimur mismunandi óvinagengjum réðust hverjir að öðrum í gær með skotvopnum, hnífum og sprengjum með þeim afleiðingum að 68 létust. Þetta er í sama fangelsi og 119 fangar létu lífið í sams konar blóðbaði í september.

Yfirvöld í Guayaquil-borg tilkynntu seint í gær að þau höfðu náð yfirráðum yfir fangelsinu á nýjan leik eftir að upplausnin hafði náð hámarki.

Óeirðirnar hófust um klukkan 19 á staðartíma á föstudag þegar fangar tóku að ráðast hver gegn öðrum með sveðjum og heyra mátti sprengingar og kúlnahríð.

Ástvinir fanga fylgdust með fyrir utan virkisveggina, skelfingu lostnir.
Ástvinir fanga fylgdust með fyrir utan virkisveggina, skelfingu lostnir. AFP

Valdatóm skapaðist

Auk þeirra 68 sem biðu bana særðust 25 fangar í blóðbaðinu, eins og fangelsismálayfirvöld í Ekvador tilkynntu á twittersíðu sinni.

Átökin eru sögð hafa sprottið upp við það að Tiguerones-gengið „missti“ leiðtoga sinn, en honum var sleppt úr haldi hafandi afplánað dóm sinn fyrir að stela varahlutum í bíla.

Það var þá sem önnur gengi reyndu að koma höggi á Tiguerones vegna þess að leiðtogi þeirra var á bak og burt úr fangelsinu. Talsmaður fangelsismálayfirvalda segir að markmið með árásunum hafi ekki verið neitt annað en að skapa glundroða innan veggja fangelsisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert