Fimmtán voru handteknir í mótmælum í Hollandi í gær vegna samkomutakmarkana sem forsætisráðherrann Mark Rutte kynnti á föstudag. Þá sjónvarpaði fréttastofan NOS myndum af mótmælendum að drekka og syngja við dyr dómsmálaráðuneytisins.
Hundruð manna flykktust á torg í bænum Leeuwarden í norður-Hollandi til að mótmæla hinum nýju takmörkunum sem kveða meðal annars á um að fólk megi ekki fá fleiri en fjóra í heimsókn til sín og að barir og veitingastaðir þurfi að loka klukkan átta á kvöldin.
Skólar verða ennþá opnir eins og venjulega en áhorfendur eru ekki lengur velkomnir í stúkur fótboltavalla og auk þess er þeim tilmælum beint til fólks að vinna heima sé sá möguleiki fyrir hendi.
Eins og víða annars staðar í Evrópu hefur smitum fjölgað ört síðustu misseri í Hollandi og er ætlunin með þessum takmörkunum að hefta frekari dreifingu. Þær munu að óbreyttu gilda til 4. desember.
Mótmæli helgarinnar voru töluvert fámennari en mótmæli síðustu helgar þegar þúsundir söfnuðust saman í Haag vegna endurkomu grímuskyldunnar.